fbpx


Útgáfu Hjúkrun 2. þrep fagnað!

HjúkrunÚtgáfu Hjúkrun 2. þrep fagnað!

Föstudaginn 21. ágúst var blásið til fagnaðar á Café Flórunni í tilefni af útgáfu kennslubókarinnar Hjúkrun 2. þrep, sem er fyrsta bókin af þremur í ritröð kennslubóka í hjúkrun sem Iðnú útgáfa gefur út. Um er að ræða tímamótaútgáfu, því þrátt fyrir að árið 2015 séu liðin fimmtíu ár síðan farið var að bjóða upp á sjúkraliðanám til starfsréttinda hér á landi, hefur framboð á kennsluefni í sérgreinum námsins; hjúkrunargreinum, verið afar takmarkað.

Heiðar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Iðnú útgáfu, sagði gestum frá tilurð útgáfunnar og þakkaði aðstandendum gott samstarf. Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, ritstjóri bókarinnar, benti á að með útgáfunni væri stigið mikilvægt skref til faglegrar þekkingarþróunar í grunngreinum hjúkrunar og sagðist horfa með tilhlökkun til vinnu við þróun og útgáfu næstu bóka. Gestir voru sammála um að útgáfan markaði nýtt upphaf í kennslu hjúkrunargreina og má með sanni segja að það hafi ríkt hátíðarstemmning á Flórunni í tilefni dagsins.